26.5.2007 | 13:26
Bilaði limurinn
Eftir þrautagöngu síðustu 18 mánaða eftir kræklóttum Krýsuvíkurleiðum íslenskrar heilsugæslu er ég nú komin í hendurnar á lýtalækni. Hann segir líkur á bata við uppskurð nokkrar, en líka 10-15% líkur á því að mér versni. Auk þess sem hann lofar ljótu öri! Eins og manni sé ekki sama...
Við tókum þá sameiginlegu ákvörðun að bíða með ákvörðunina þar til eftir sumarfríið langa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2007 | 13:48
Goran er töffari
Kynþokkinn flæddi af sviðinu í gærkvöldi. Áheyrendur voru á iði, sem af og til stigmagnaðist upp í trylltan dans. Ábúðarfullir, sterum prýddir verðir beittu hörku á þá sem gátu ekki hamið gleði sína. Það virtust einna helst vera Serbar, mættir til þess að horfa á "Bubba" sinn. Þeir vöfðu sig og veifuðu fánum og var þrífingrakveðjan á lofti meira eða minna allan tímann. Undir lokin þýddi ekkert að eiga við góðglaðan, slavneskan ungdóminn, sem flæddi fram fyrir áhorfendur og upp að sviðinu og dansaði þar eins og þeir hefðu verið að vinna Bosníustríð. Ljósalegnir bekkpressugæjar með sítt að aftan og stúlkur undir lögaldri, útbúnar eins og fastráðnir Bóhemstarfsmenn, í rorrandi bjór- og þjóðernisvímu, sungu hástöfum með: "Kalasnjikov!" og Íslendingarnir öskruðu: "Árás!!!" samkvæmt fyrirmælum þess kynþokkafulla. Ég átti dálítið erfitt með þetta allt saman.
En það var gaman.... ó, mæ....
Mamma litla lenti í sæti við hliðina á stórum, fullum manni. Hann tók mikið pláss og var voða glaður. Mamma litla er heppin að vera ekki marin og blá eftir kvöldið. Ég held að henni hafi þótt þetta hin besta skemmtun engu að síður. Áhugavert og öðruvísi.
Goran (eða Göran, eins og sænsku taugarnar í mér kjósa að kalla hann) er alvöru töffari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2007 | 16:47
Fjör fyrir brúðkaup og jarðarfarir
Ég ætla að hlusta á Goran Bregovic í kvöld. Mamma líka. Tónleikarnir ganga undir nafninu "Tales and Songs for Weddings and Funerals".
Vinkona mín fór í jarðarför í gær. Henni varð að orði, þar sem við sátum á bekk í gærmorgun og sleiktum sólina: "Það er nú ekki amalegt að láta jarða sig í dag."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 20:14
Þá liggja þeir fyrir, sumardvalarstaðirnir...
Fyrstu ár okkar í Júró, sextándasætisárin, var það alltaf viðkvæði að einungis skyldi heimsækja þau lönd í sumarfríum sem greiddu íslensku framlagi atkvæði.
Nú liggur það fyrir hvert Íslendingar eiga að fara til þess að sóla sig í ár:
1. Finnland (12 stig)
2. Noregur (12 stig)
3. Svíþjóð (12 stig)
4. Ungverjaland (10 stig)
5. Danmörk (10 stig)
6. Eistland (6 stig) - þar sem maður drekkur bjór með Eistunum
7. Lettland (6 stig)
8. Litháen (5 stig)
9. Hvíta-Rússland (3 stig)
10. Georgía (1 stig)
Góða ferð! Ég ætla reyndar til Nýju-Jórvíkur. Þeir fengu ekki að kjósa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 20:50
Júró júró...
Mig hefir gripið ægilegt júróæði. Átti í djúpum, tilfinningaþrungnum samræðum í leikfiminni í dag við spriklsystur mínar um málefnið. Rak í rogastans þegar ég gerði mér grein fyrir því. Þetta hefur nú ekki verið mikið hjartans mál í gegnum tíðina, þó mér finnist júró hin besta skemmtun og horfi alltaf, að minnsta kosti á hluta af keppninni. Ef mér býðst ekkert betra. Hingað til hefur t.d. pólitík vegið þungt í samanburðinum við Ding-a-dong.
Nú bregður hins vegar svo við að júróvogarskálin sígur vel. Ég held ég sé búin að heyra flest lögin og mynda mér skoðun á hverju og einu. Spái fyrir um gengi þeirra. Hlakka svakalega til að sjá "strákana okkar" á sviðinu á morgun. Og stigagjöfina, maður lifandi. Ætla jafnvel að kjósa sjálf. Verst af öllu er að pjakkur minn hefur lítinn áhuga á þessu. Ég verð örugglega ein fyrir framan sjónvarpið að stúdera búninga og hárgreiðslur og nef og enni og rassa - sem er að sjálfsögðu einn mikilvægasti þátturinn í því að fá sem mest út úr júró. Lærði það fyrir löngu.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að dagleg innspýting frásagna frá Helsinki valda þessu æði. Nusi minn er í hringiðunni miðri, æðislegasta hommapartýi heims. Honum leiðist ekki. Þau eru mörg essemmessin í minn kännykkä. Yksi olut! Kippis! Eurovision, olkaa hyvä!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.5.2007 | 14:03
Ágætis áminning
Í ljósi nýlegra frétta af því að hér á landi séu líkurnar á rangri sjúkdómsgreiningu um 10% er ekki vanþörf á því að minna sjálfan sig og aðra á að taka aldrei neinu gefnu í þessum málum...
Það er þó alltaf skárra þegar ranga sjúkdómsgreiningin er í þessa áttina.
Dauðvona sjúklingur sem eyddi aleigunni var ranglega greindur með krabbamein | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2007 | 18:05
1 de Mayo
Þjáðir menn örkuðu niður Laugaveg að vanda og söfnuðust að Ingólfstorgi. Veður var með besta móti. Ræðuhöld í meðallagi. Baggalútur bestur. Samfylkingin og ísbúðin sáu um börnin.
Einkasonurinn og félagar hans lögðust í víking. Gengu milli kosningaskrifstofa og þáðu veitingar, nammi, penna, barmmerki og allt það sem hægt var að komast yfir. Töldu sig hafa grætt vel.
Nú segja menn að Geir og Jón ætli að selja Landsvirkjun og að Kjartan slaufukall verði hæstráðandi þar. Hæfir kjafti skel? Nonni segir þetta fleipur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2007 | 16:14
Vöðvafettir
Við mæðgin sáum söngleikinn Gretti í Borgarleikhúsinu í gærkveldi. Þvílík gleði. Ég mátti sitja á honum stóra mínum, svo mjög langaði mig að syngja hástöfum með. Þessi lög hafa svo sannarlega staðist tímans tönn og voru flutt af stakri snilld. Valinn maður í hverju rúmi...
Adam var á tímabili stjarfur eftir að Glámur starði í augu hans, með draugalegri draugum sem sést hafa lengi. Eitthvað skánaði það eftir að Glámur hóf upp raust sína, en hann var þó sannfærður um að þeir myndu hittast um nóttina. Við fórum á bakvið eftir sýningu, ég hélt að það yrði nóg til þess að hann myndi sættast við Glám. En hann hafði enn skelfingaráhrif á drenginn svona "up close and personal" þrátt fyrir að vera búinn í sturtunni... enda veglegar leifar af Glámi enn eftir í andlitinu.
Mæli eindregið með sýningunni. Mig langar aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2007 | 12:42
Gleðilegt sumar!
Þá hefur veturinn fuðrað upp...
Ég kvaddi vetur með núverandi og fyrrverandi samstarfskonum. Skemmst frá að segja að brandarar kvöldsins voru nokkuð á einn veg; eldheit tilboð á sviðum og reyktum lax á Café Óperu með flamberuðum hanastélum á Pravda við undirleik Sviðinnar jarðar. Dásamleg spennulosun í eðalfélagsskap eftir erfiðan dag.
Í morgun fagnaði ég sumri með skátahreyfingunni í Hallgrímskirkju. Falleg athöfn í boði Baugs. Skátahöfðingi hélt góða ræðu, að undanskilinni upptalningu helstu styrktaraðila, sem hefði verið smekklegra að sleppa. Svo nikkaði hún pent til forseta vors, um leið og hún þakkaði honum og tók fram að hann væri "vermdari" skátahreyfingarinnar.
Eníveis.... Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2007 | 18:48
Mjómjó eða mjómjómjó?
Ótrúlegur andskoti hvað það getur verið erfitt að vera í átaki...
Síðustu þrír dagar hafa verið svona (mataræðislega séð): Séríós í morgunmat, einn diskur, vatn, kaffi og hnefi af pillum (lýsi, kalk, spírúlína og magatöflur). Vanilluskyr og flatkaka í hádegismat. Epli eða banani í eftirmiðdaginn. Gasalega yfirveguð og rútíneruð. Svo dett ég í subbumat í kvöldmat. Pylsur og pasta. Og mikið af því. Ráðlagður dagskammtur af Karólínum innbyrtur á kortéri. Reyni svo að hemja átlöngunina á kvöldin með mörgum appelsínum og eplum. Held ég geti snúið á samviskuna. Þangað til ég stíg á vigtina og held bara áfram að þyngjast! Þrátt fyrir að það tappist af mér í lítravís í leikfiminni! Ég bara nenni þessu ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Mussan sjálf
Spurt er
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar